Fara í efni
Heim

Þorrinn

janúar 24. - febrúar 20.

Þorri er fjórði mánuður vetrar og hefst á föstudegi  í 13. viku vetrar að forníslensku tímatali. Þá taldist veturinn hálfnaður. Líklegt er talið að Þorri hafi verið vetrarvættur (yfirnáttúruleg vera) eða veðurguð.  Opinber þorrablót voru haldin í heiðnum sið, en eftir kristnitöku lengi vel einungis í heimahúsum. Eftir að Íslendingar öðluðust trúfrelsi seint á 19. öld var aftur tekið að halda opinber þorrablót.

Á þessum dögum fagna margir Íslendingar þorra og stór þorrablót eru haldin víða um land.  Þá er boðið upp á mat sem á sér langa hefð hér á landi, og má segja að um sé að ræða gamlan íslenskan hversdagsmat. Einu geymsluaðferðir þess tíma voru að súrsa, salta eða reykja mat. Maturinn er oft borinn fram í trogi, en það er tréílát frá fyrri tíð. Meðal þess sem borðað er á þorrablótum eru súrsaðir hrútspungar, súr hvalur, svið, sviðasulta, harðfiskur, hangikjöt, laufabrauð og hákarl.  Brennivín er oft drukkið með hákarlinum.