Snæfellsnes
Kyngimagnað ævintýri
Stutt er að fara á Snæfellsnes frá Icelandair hótel Hamri. Snæfellsnes er langt nes á Vesturlandi milli Faxaflóa að sunnan og Breiðafjarðar að norðan. Á Snæfellsnesi eru nokkrir bæir meðfram ströndum, Stykkishólmur, Grundarfjörður, Ólafsvík, Rif og Hellissandur, allt eru þetta þorp og bæir sem byggja afkomu sína að mestu á sjávarútvegi. Fjallgarður liggur eftir Snæfellsnesi endilöngu en hæsta fjallið á nesinu er eldkeilan Snæfellsjökull (1446 m). Snæfellsjökull er frægur fyrir meinta dulræna krafta sem í honum eru sagðir búa. Snæfellsnes hefur upp á margt að bjóða fyrir náttúruskoðendur og ýmis konar spennandi afþreying fyrir unga sem aldna.
Afþreying
Þekkt afþreying á svæðinu eru siglingar um Breiðafjarðareyjar frá Stykkishólmi og bátsferðir frá Grundarfirði þar sem leitað er að hvölum og rennt fyrir fisk. Hraunhellar eru nokkrir á svæðinu og eru hvað þekktastir í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Þar hafa áhugamenn gert aðgengilegan Vatnshelli sem er stórkostleg náttúrusmíð sem enginn má missa af. Á vegum Þjóðgarðsins eru farnar skipulagðar ferðir í hellinn með leiðsögn landvarða. Á Snæfellsnesi er óvenju fjölbreytt flóra ólíkra safna. Má þar nefna Sjómannagarðinn á Hellissandi, Gamla pakkhúsið í Ólafsvík, Sögumiðstöðina í Grundarfirði og Byggðasafn Snæfellinga í Norska húsinu í Stykkishólmi. Í Stykkishólmi er einnig að finna Eldfjallasafn Haraldar Sigurðssonar og Vatnasafnið. Auk þessa er vert að bragða á hákarli í Hákarlasafninu í Bjarnarhöfn.
Snæfellsnes er stórkostlegt svæði fyrir útivistarfólk og gönguleiðir þar fjölmargar. Boðið er upp á skipulagðar ferðir upp á topp Snæfellsjökuls með snjósleða eða snjótroðara. Golfvellir eru nokkrir og nokkrar hestaleigur starfa á svæðinu. Einstök náttúrulaug er á Lýsuhóli í Staðarsveit, innilaug í Ólafsvík, ágæt útisundlaug með heitum pottum í Grundarfirði og í Stykkishólmi er ein af glæsilegri sundlaugum landsins.